Flugvallaryfirvöld á Charles de Gaulle flugvelli, í París, hafa svipt sjötíu og tvo múslimska starfsmenn vallarins öryggispössum sínum, vegna gruns um að þeir tengist öfgasamtökum. Fólkið vinnur einkum við hreingerningar og afgreiðslu.
Franskur embættismaður segir í viðtali við New York Times að þessi ákvörðun hafi verið tekin eftir að fylgst var með eitthundrað starfsmönnum, sem er múslimar, um margra mánaða skeið. Einn þeirra reyndist hafa verið vinur hins breska Richards Reed, sem reyndi að sprengja upp flugvél á leið frá París til New York, árið 2001. Reid hafði falið sprengiefni í skóm sínum.
Annar er sagður hafa verið í sambandi við leiðtoga alsírskra hryðjuverkamanna, sem hafa tengsl við Al Kæda. Þótt öryggispassarnir hafi verið teknir af fólkinu sinnir það störfum sínum áfram, þar sem það á andmælarétt áður en því er sagt upp, samkvæmt frönskum lögum.