Innlent

Sjö þegar yfirheyrðir vegna hlerana

Rannsókn sýslumannsins á Akranesi í hlerunarmálinu er langt komin en skýrslur hafa verið teknar af sjö mönnum vegna málsins. Rannsóknin snýr að meintum hlerunum á símum Jóns Baldvins Hannibalssonar og starfsmanns hans í utanríkisráðuneytinu. Maðurinn sem á að hafa hlerað Jón Baldvin hefur verið nafngreindur og upplýsingar um hann eru í höndum sýslumanns. Sýslumaðurinn á Akranesi, Ólafur þór Hauksson, verst frétta af gangi rannsóknarinnar en segir þó að henni miði vel "miðað við það sem úr er að moða", - eins og hann orðar það. Ólafur Þór gerir ráð fyrir því að rannsókninni ljúki innan fárra vikna og verði að óbreyttu langt komin strax í næstu viku.

Nú þegar er búið að taka skýrslu af sjö mönnum og segir Ólafur Þór, sýslumaður, að þeir hafi allir haft réttarstöðu vitna - ekki grunaðra. Hann eigi eftir að taka skýrslu af tveimur til þremur mönnum til viðbótar og er á sýslumanni að heyra að fleiri verði ekki kallaðir til, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

Árni Páll Árnason, sem er í prófkjörsbaráttu fyrir Samfylkinguna í suðvesturkjördæmi hefur enn ekki mætt til sýslumanns - en hann á fund með honum á mánudag. Árni Páll greindi frá því að hann hefði verið varaður við því að sími hans var hleraður þegar hann var starfsmaður varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Jón Baldvin Hannibalsson hefur gefið skýrslu. Það sama gerði heimildarmaður Jóns Baldvins sem var í yfirmannastöðu hjá Landsímanum, en sá lét Jóni Baldvin vita um mann sem mun hafa setið löngum stundum og hlustað við tengivirkið hjá símanum. Eitt skipti hefði heimildarmaðurinn laumast í hlerunartækin og heyrt þá símmtal Jóns Baldvins, þáverandi utanríkisráðherra.

Jón Baldvin segir að heimildarmaðurinn hafi getað nafngreint þann dularfulla mann sem átti að hafa setið við hlustir vikum eða mánuðum saman hjá símanum. Viti Jón Baldvin þó ekki hvort sá maður hafi verið kallaður til yfirheyrslu vegna málsins.

Sýslumaðurinn á Akranesi skilar ríkissaksóknara niðurstöðu sinni og gerir hann ráð fyrir því að saksóknarai geri opinberlega grein fyrir henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×