Innlent

KB banki greiðir langhæstu opinberu gjöldin

Kaupþing banki greiðir langhæstu opinberu gjöld allra lögaðila, samkvæmt álagningaskrá Skattstjórans í Reykjavík fyrir þetta ár. Reykjavíkurborg er komin niður í sjötta sæti, en Kópavogsbær er hins vegar hæsti greiðandi í Reykjanesumdæmi.

KB banki greiðir nærri sjö milljarða króna í opinber gjöld , næst kemur Fjársýsla ríkisins með 5,8 milljarða króna, launaafgreiðsla Fjársýslunnar er í þriðja sæti og greiðir 4,5 milljarð, Landsbankinn með 3,6, Íslandsbanki með 1,8 milljarð og Reykjavíkurborg í sjötta sæti með 1,2 milljarða. Þar á eftir kemur Straumur Burðarás, Icelandair, Skildingur og Byggingafélag Gylfa og Gunnars er í tíunda sæti.

Athygli vekur að í hópi tíu efstu greiðenda eru aðeins tvö fyrirtæki sem eru almenningi greinilega sýnileg með umsvifum sínum í framleiðslu eða þjónustu, eða Icelandair og Gylfi og Gunnar. Þeim fjölgar hinsvegar í næstu tíu sætum þar sem fyrirtæki eins og HB Grandi, Ístak, Íslandspóstur, Impregilo á Íslandi, Eimskip, Samskip, Húsasmiðjan og Bechtel. Þessi fyrirtæki greiða flest á bilinu eitt hundrað til tvö hundruð milljónir króna í opinber gjöld.

Í Reykjanesumdæmi greiðir Kópavogsbær hæstu opinberu gjöldin, röskar 300 milljónir, næst kemur P. Samúelsson, eða Toyotaumboðið, fjármáladeild Varnarliðsins er í þriðja sæti, því næst Hafnarfjarðarbær, Suðurverk, Stálskip, Þorbjörn Fiskanes, Alcan eða Straumsvíkurálverið, Reykjanesbær og Íslenskir Aðalverktakar eru í tíunda sæti. Fimmtán efstu greiðendur á Reykjanesi eru talsvert innan við að vera hálfdrættingar á við KB banka einan í Reykjavík.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×