Erlent

Kastró á batavegi

Fídel Kastró, forseti Kúbu kom fram í sjónvarpi í heimalandi sínu í gær í fyrsta sinn í rúman mánuð. Forsetinn, sem varð áttræður í ár, hefur verið að jafna sig eftir erfiða aðgerð. Hann gekk um gólf á upptökunni sem sýnd var og sagði sögur af andláti sínu stórlega ýktar.

Kastró lét bróður sínum Raul eftir forsetavald á Kúbu tímabundið í júlí þegar forsetinn gekkst undir aðgerð á þörmum. Á myndbandinu, sem sýnt var í gær, mátti sjá forsetan þar sem hann gekk stirðlega um með dagblað frá því í gær í hendi sér til að staðfesta, svo ekki væri um að villast, að hann væri enn á lífi. Myndir hafa ekki birsta af Kastró síðan um miðjan september þegar myndir voru teknar af honum með þjóðarleiðtogum sem sóttu þá fund í Havana.

Forsetinn sagði í gær að það tæki hann nokkurn tíma að jafna sig eftir aðgerðina og enn væri hætta á bakslagði. Hann lagði þó áherslu á að allt gengi að óskum.

Kastró hefur ekki komið fram opinberlega síðan tuttugasta og sjötta júlí síðastliðinn, nokkrum dögum áður en hann lagðist undir hnífinn. Hann segir orðróm um alvarlegt heilsuleysi fáranlegan og móðgandi. Þetta væri áróður óvina hans. Með myndbandinu, sem birt var í gær, vildi hann þagga niður í þeim sem segðu hann við dauðans dyr.

Forsetinn sagðist reyna að aðstoða þá sem stýrðu landinu í fjarveru hans. Heilsan leyfði þó ekki nema töluvert takmarkaða þátttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×