Erlent

Chavez með 35% forskot

Hugo Chavez, forseti Venesúela.
Hugo Chavez, forseti Venesúela. MYND/AP

Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur 35% forskot á helsta andstæðing sinn fyrir forsetakosningar þar í landi 3. desember nk. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar. Það var Háskólinn í Miami í Bandaríkjunum sem framkvæmdi könnunina fyrir alþjóðlega skoðanakönnunarfyrirtækið Zogby. Samkvæmt henni hefur Chavez stuðning 59% íbúa í Venesúela.

Stjórnarandstaðan í Venesúela hefur fylkt sér um Manuel Rosales, reynda stjórnmálamann sem nú er ríkisstjóri í olíuhéraðinu Zulia í vesturhluta landsins. Þetta er breyting frá því sem áður hefur verið þar sem stjórnarandstaðan í Venesúela hefur oftar en ekki verið margklofin. Stuðningur við Rosales er þó ekki mikill eða 24%.

Verði þetta niðurstaðan í kosningunum verða það mikil vonbrigði fyrir stjórnarandstöðuna sem lagt mikið á sig í kosningabaráttunni og síst minna um lýðskrum en hjá sitjandi forseta. Rosales hefur einnig fengið drjúgan tíma í fjölmiðlum til að koma stefnumálum sínum á framfæri. Hef er fyrir því að fjölmiðlar teljist til andstæðinga Chavezar.

Könnun frá því í síðasta mánuði sýndi Chavez með 48% atkvæða og Rosales með 30%. Þar var munurinn 18% og töluvert minni en nú. Könnunarfyrirtækið Zogby spáði rétt fyrir um úrslit kosninganna í Mexíkó þar sem Felipe Calderon, frambjóðandi íhaldsmanna, vann nauman sigur. Hann tekur við embætti í desember.

Þátttakendur í könnuninni í Venesúela voru spurðir hvort þeir væru sáttir við ummæli Chavezar forseta á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann sagði George Bush, Bandaríkjaforseta, vera djöfulinn. 36% íbúa í Venesúela voru stoltir af forseta sínum við það tækifæri, 23% skömmuðust sín, 15% létu ummælin sig litlu varð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×