OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, ákváðu á fundi sínum í dag að draga úr framboði á olíu um 1.2 milljónir tunna á dag. Samkvæmt þessu verður framboð á olíu 26.3 milljónir tunna á dag frá 1. nóvember nk. Þetta er í fyrsta sinn í rúm 2 ár sem þetta bandalag 11 olíuútflutningsríkja kemst að niðurstöðu um að dregið verið úr framboði heilt yfir. Samtökin eru að reyna að tryggja alheimsverð á hráolíu sem hefur lækkað um 20% frá því að það náði hámarki, eða 78 bandaríkjadölum á tunnuna, þegar átök stóðu sem hæst milli Ísraela og Hizbollah-skæruliða í Líbanon í júlí sl.
Þessi ákvörðun hefur áhrif á öll útflutningsríkin nema Írak.
Miklar breytingar hafa orðið á olíuverði á þessu ári vegna spennu í heiminum og vandræða við framleiðslu. Sérfræðingar eiga ekki von á verð hækki á næstunni jafn mikið og í sumar þar sem olíuvinnsla færist í aukana á ákveðnum svæðum á næstunni.
Þeir benda þó á að átandið sé ótryggt á þeim svæðum þar sem fjölmörg olíuframleiðsluríki séu og ef eitthvað bjáti á geti það þegar leitt til verðhækkunar. Sérfræðingar spá að dregið verði frekar úr framleiðslu á næstu mánuðum.
Fulltrúar OPEC funda næst í Abuja í Nígeríu í desember.
Reuters-fréttastofan hefur eftir Rafael Ramirez, orku- og námaráðherra Venesúela að svo gæti farið að minnka þyrfti framboð um hálfa milljón tunna til viðbótar. Abdullah bin Hamid Al-Attiyah, orkumálaráðherr Katar, tekur í sama streng og segir þetta opin markað og því geti allt gerst.