Enski boltinn

Tottenham í miklum vandræðum

Ledley King verður líklega ekki með Tottenham gegn Besiktas
Ledley King verður líklega ekki með Tottenham gegn Besiktas NordicPhotos/GettyImages

Enska úrvalsdeildarliðið Tottenham er nú í gríðarlegum vandræðum með að manna vörnina fyrir leikinn gegn Besiktas í Evrópukeppni félagsliða á fimmtudaginn, en leikurinn verður sýndur beint á Sýn. Aðeins einn nothæfur miðvörður er í hóp liðsins í dag.

Landsliðsmaðurinn Ledley King á enn við hnémeiðsli að stríða sem héldu honum út úr enska landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Króötum. Michael Dawson fékk þungt höfuðhögg annan leikinn í röð gegn Aston Villa um helgina og verður að hvíla - og þá nefbrotnaði Calum Davenport í þessum sama leik og því er hann mjög tæpur fyrir leikinn, þó væntanlega verði hægt að tjasla honum saman fyrir leikinn.

Þetta þýðir að hinn mistæki Anthony Gardner verði líklega eini heili miðvörðurinn í hópi Martin Jol fyrir leikinn gegn Besiktas. Til að bæta gráu ofan á svart, meiddist svo miðjumaðurinn Hossam Ghaly gegn Villa og hann verður því ekki með heldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×