Enski boltinn

Hilario er vandanum vaxinn

Ef þessi maður spilar sinn fyrsta leik fyrir Chelsea á miðvikudag, verður sú frumraun væntanlega eftirminnileg
Ef þessi maður spilar sinn fyrsta leik fyrir Chelsea á miðvikudag, verður sú frumraun væntanlega eftirminnileg NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Joe Cole hjá Chelsea segir að liðið sé ekki á flæðiskeri statt þó þeir Petr Cech og Carlo Cudicini séu meiddir, því þriðji markvörðurinn sé vandanum vaxinn. Hilario heitir sá kappi og gekk í raðir Chelsea í sumar, en hann hefur áður spilað gegn Barcelona í Meistaradeildinni.

Hilario stóð í marki Porto í Meistaradeildinni þegar Jose Mourinho var aðeins aðstoðarþjálfari liðsins á sínum tíma og mætti þar meðal annars Barcelona í tvígang. Cole segir hann góðan markvörð.

"Hann er frábær markvörður og útlit er fyrir að hann fái að spila gegn Barcelona. Ég hef séð hann á æfingum og hann lítur bara mjög vel út og svo hefur hann líka nauðsynlega reynslu," sagði Cole og bætti við að til greina hefði komið að hann færi í markið í leiknum örlagaríka gegn Reading um helgina.

"Ég sat á bekknum og sagði við strákana - Hvað ef Carlo meiðist nú líka? Ég er stundum í markinu á æfingum, en ég verð að viðurkenna að John Terry er miklu betri en ég og þeir hefðu eflaust ekki viljað hafa mig þarna í markinu," sagði Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×