Sport

Fjandans sama um gagnrýni

Framherjinn snjalli Lukas Podolski svaraði harðri gagnrýni í gær þegar hann skoraði tvö mörk í 4-1 sigri Þjóðverja á Slóvökum í undankeppni EM. Podolski hefur verið harðlega gagnrýndur í þýskum fjölmiðlum sem og af félögum sínum hjá Bayern Munchen.

Felix Magath, þjálfari hans hjá Bayern, hefur sagt að Podolski geri allt of mikið af því að brosa og Michael Ballack hefur varað hann við því að slá slöku við ef hann ætli sér að verða frábær leikmaður. Þá var Podolski gagnrýndur harðlega í fjölmiðlum í Þýskalandi eftir að hann fékk að líta rautt spjald í æfingaleik þýska liðsins um síðustu helgi.

"Ég nýt hverrar stundar á knattspyrnuvellinum og hver dagur er eins og draumur fyrir mér. Mér er því fjandans sama hvað aðrir segja," sagði Podolski, sem skoraði sitt 22. mark í 37 landsleikjum í gær - aðeins 21 árs gamall.

"Podolski er algjör perla og það er ótrúlegt hvað hann hefur afrekað svo ungur," sagði Joachim Loew, landsliðsþjálfari Þjóðverja. "Það er því mikilvægt fyrir okkur alla að hlúa vel að honum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×