Innlent

Davíð trúir ekki á að Jón Baldvin hafi verið hleraður

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, telur illboðlegt að hafa ekki sýnilegar varnir á Íslandi og hefði sjálfur sagt upp varnarsamningnum. Hann álasar þó ekki eftirmanni sínum fyrir samninginn sem undirritaður var í Washington í dag - en kallar hann bútasaum. Sjálfur hefði hann sagt upp samningnum fimmtánda ágúst þegar ljóst hafi verið að Bandaríkjamenn ætluðu einhliða að túlka skuldbindingar sínar í samræmi við varnarsamninginn og draga allt herlið sitt frá Íslandi.

Davíð bendir þó á að efnahagslega hafi brotthvarf hersins litla enfahagslega þýðingu - til marks um það er að markaðir hér hreyfðust ekki þrátt fyrir tilkynningu Bandaríkjamanna fimmtánda mars. Það sé bót í máli að tilkynning Bandaríkjamanna gæri ekki hafa komið á betri tíma.

Jón Baldvin Hannibalsson sagði í gær frá hlerun á síma sínum í utanríkisráðuneytinu 1992 eða 93 en þá var Davíð forsætisráðherra í svokallaðri Viðeyjarstjórn. Davíð leggur ekki mikinn trúnað á þetta og bendir á að NATO og norska öryggislögreglan hafi yfirfarið síma Jóns Baldvins og annara ráðamanna árlega. Hann skilji því ekki af hverju Jón Baldvin treysti á "kunningja" og "amatör" til að kveða uppúr um að sími hafi verið hleraður.

Davíð telur að Jón Baldvin hefði ekki átt að dylgja um að lögreglan á hæðinni fyrir neðan skrifstofur utanríkisráðuneytisins hafi hlerað síma ráðherrans. Þar sé hann að taka undir fráleitt tal um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Bendir Davíð á að Framsóknarmaðurinn Böðvar Bragason hafi verið lögreglustjóri á þessum tíma og litlar líkur á því að hann hafi njósnað um Jón Baldvin fyrir Sjálfstæðismenn í Valhöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×