Innlent

Vörugjöldin hverfa og vaskurinn lækkar í 7%

Matarreikningur heimilanna lækkar um tugi þúsunda á ári þegar tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að lækka matarverð taka gildi. Virðisaukaskattur á allan mat lækkar niður í sjö prósent og vörugjöld heyra sögunni til frá fyrsta mars á næsta ári.

Ríkisstjórnin kynnti í morgun umfangsmiklar aðgerðir til að lækka matarverð um 16%. Tillögurnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi verður mikil hreinsun í vörugjaldafrumskóginum - eins og forsætisráðherra orðaði það í dag - vörugjöld af innlendum og innfluttum matvælum verða felld niður að fullu eftir fimm mánuði - af öllu nema óhollustu, þ.e. sykri og sætindum. Í öðru lagi lækkar virðisaukaskattur á öllum matvælum niður í 7%, en fjórðungur af matarskattstekjum ríkissjóðs kom frá mat sem bar 24,5% vsk. en þrír fjórðu frá fjórtán prósenta þrepinu. Sömuleiðis lækkar virðisaukaskattur á ýmsar aðrar vörur og þjónustu, eins og bækur, tímarit, blöð, húshitun og hótelgistingu um helming, fer úr 14% í 7. Í þriðja lagi verða tollar á innfluttum kjötvörum lækkaðir um allt að 40%.

Össur Skarphéðinsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar fagnar tillögunum, segir þær fyrsta skrefið í lækkun matarverðs. Næsta skref verði stigið þegar Samfylking sest í ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×