Innlent

Ferðamenn streyma enn að Kárahnjúkum í október

Rútufarmar af ferðamönnum streyma enn á Kárahnjúkasvæðið, þótt komið sé fram í október, og íhuga Landsvirkjunarmenn nú að framlengja opnunartíma upplýsingamiðstöðvar við Valþjófsstað til að mæta ásókninni.

Rúta er að koma að upplýsingamiðstöðinni í Végarði í Fljótsdal einn morgun í vikunni, með starfsmenn raforkufyrirtækis frá Lettlandi, en þegar hún ekur úr hlaði er önnur komin á svæðið, full af verkfræðinemum úr Háskóla Íslands. Tveir aðrir hópar eru svo væntanlegir síðar þennan dag. Þetta er rétt eins og um hásumar við fjölsóttan ferðamannastað sunnanlands en allt þetta fólk er að fara að skoða Kárahbjúka lengst inni á hálendi á virkum degi og það í októbermánuði. Hér er hópur frá sænsku kjarnorkufyrirtæki á útsýnisstaðnum við Sandfell. Í fyrra datt ferðamannastraumurinn niður snemma hausts en nú ber svo við að ekkert lát er á honum og skýra menn það með mikilli umræðu síðustu vikur og góðu veðri.

Sólveig Bergsteinsdóttir í upplýsingamiðstöðinni Végarði segir að eldra fólk á eftirlaunum sé áberandi. Oft tvenn hjón saman í bíl á ferð um landið og ekki skipti máli þótt sumarið sé liðið. Fólk sé á góðum bílum og hálendisvegir ennþá færir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×