Enski boltinn

Ósáttur við niðurröðun landsleikja

Arsene Wenger er afar óhress með landsleikjahlé og segir þau koma illa niður á félagsliðunum
Arsene Wenger er afar óhress með landsleikjahlé og segir þau koma illa niður á félagsliðunum NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger hefur alltaf ákveðnar skoðanir á því þegar liðsmenn hans yfirgefa herbúðir Arsenal og spila með landsliðum sínum. Wenger segir að landsliðin taki allt of mikinn tíma frá félagsliðunum yfir keppnistímabilið og óttast væntanlega að það komi niður á þeirri góðu siglingu sem er á liði hans um þessar mundir.

Arsenal vann sinn fimmta leik í röð í gær þegar liðið lagði Charlton en nú er útlit fyrir að hann fái ekki að sjá lykilmenn sína næstu tíu dagana eða svo vegna landsleikjanna í næstu viku.

"Þetta er hræðilegt. Landsliðin spila á laugardögum og miðvikudögum og þegar menn loks koma til baka, hefur maður alls ekki nógu langan tíma til að undirbúa þá undir komandi átök. Ég hef áður lagt til að landsleikir verði spilaðir á laugardögum og þriðjudögum en það hefur ekki hlotið hljómgrunn.

Ég hef reiknað það út að leikmenn mínir verða í burtu með landsliðum sínum í samtals 100 daga á næstu 10 mánuðum og það er gjörsamlega óviðeigandi. Þegar allt er talið erum það við sem erum atvinnurekendur þessara manna og því tel ég það óásættanlegt að leikmenn séu svo lengi í burtu frá félagsliðum sínum.

Menn verða bara að finna betri málamiðlun í þessum efnum, því núverandi fyrirkomulag er félagsliðunum klárlega í mikinn óhag," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×