Enski boltinn

Fer fögrum orðum um Heiðar Helguson

Aidy Boothroyd hefur miklar mætur á Heiðari Helgusyni og á alveg eins von á að íslenski landsliðsmaðurinn skori gegn sínum gömlu félögum annað kvöld
Aidy Boothroyd hefur miklar mætur á Heiðari Helgusyni og á alveg eins von á að íslenski landsliðsmaðurinn skori gegn sínum gömlu félögum annað kvöld NordicPhotos/GettyImages

Aidy Bootroyd segist ekki sjá eftir því að hafa selt Heiðar Helguson til Fulham á sínum tíma og segir að bæði Heiðar og Watford hafi hagnast á því á sínum tíma. Heiðar og félagar í Fulham sækja gamla liðið hans heim í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld og á Boothroyd von á því að íslenski landsliðsmaðurinn fái góðar móttökur.

"Það var einfaldlega hárrétt tímasetning bæði fyrir Heiðar og fyrir okkur á sínum tíma, því félagið átti litla sem enga peninga þegar við seldum hann og við gátum styrkt lið okkar til muna fyrir þá peninga sem fengust fyrir Heiðar. Við náðum að kaupa nokkra leikmenn í staðinn sem ætlunin var að næðu að koma okkur í úrvalsdeildina - og það tókst.

Heiðar er leikmaður sem við þurfum að hafa góðar gætur á þegar Fulham kemur hingað á mánudag, en við verðum ekki með hann í sérstakri gæslu. Það er þó full ástæða til að hafa góðar gætur á honum, því leikmenn eiga það oft til að skora gegn sínum gömlu félögum," sagði Bootroyd og bætti við að margir hefðu talið það hræðileg tíðindi fyrir félagið þegar Heiðar var seldur á sínum tíma.

"Margir héldu hreinlega að liðið myndi falla þegar Heiðar fór en það sýndi sig eftir að hann fór að stundum er það bæði leikmanninum og félaginu til góða þegar maður af hans styrk fer frá félaginu.

Heiðar var frábær leikmaður, traustur og yfir höfuð prýðisnáungi sem gaf alltaf allt sitt í leikina og það var frábært að vera með hann í liðinu. Hann er góður drengur og ég á ekki von á öðru en að hann geri fína hluti með Fulham," sagði Bootroyd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×