Fótbolti

Juventus heldur mér nauðugum

Trezeguet á ekki sjö dagana sæla hjá Juventus í ítölsku B-deildinni
Trezeguet á ekki sjö dagana sæla hjá Juventus í ítölsku B-deildinni NordicPhotos/GettyImages

Franski framherjinn David Trezeguet heldur því fram við fjölmiðla í heimalandi sínu að forráðamenn Juventus haldi honum nauðugum hjá félaginu eftir að það féll í B-deildina á Ítaliu í kjölfar þátttöku þess í knattspyrnuskandalnum fræga.

"Didier Deschamps kom einfaldlega til mín og sagði mér að ég væri ekki að fara fet," sagði Trezeguet. "Þegar maður er búinn að spila sjö ár í röð í meistaradeildinni er ekki auðvelt að heyra svona nokkuð, en mér var tilkynnt það frá því málið kom upp að ég hefði engra annara kosta völ," sagði Trezeguet sem hefur verið hjá Juventus síðan árið 2000.

Trezeguet segist ekki hugsa mikið um vítaspyrnuna sem hann klúðraði í úrslitaleik HM í sumar, en mistök hans kostuðu Frakka heimsmeistaratitilinn. "Fólk er alltaf að spyrja mig út í þessa vítaspyrnu, en mér finnst leiðinlegra að hafa sama og ekkert fengið að spila í heimsmeistarakeppninni - sem gæti svo átt eftir að verða mín síðasta á ferlinum," sagði Trezeguet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×