Sport

Tefli Malbranque ekki fram þó það kosti mig starfið

Steed Malbranque er til mikilla vandræða í herbúðum Fulham, en þessi frábæri leikmaður horfir nú fram á að verða aðeins áhorfandi á leiki liðsins í vetur
Steed Malbranque er til mikilla vandræða í herbúðum Fulham, en þessi frábæri leikmaður horfir nú fram á að verða aðeins áhorfandi á leiki liðsins í vetur NordicPhotos/GettyImages

Chris Coleman segir það ekki koma til greina að tefla franska miðjumanninum Steed Malbranque fram með liði Fulham í vetur, jafnvel þó það kosti sig starfið. Malbranque hefur verið til sífelldra vandræða hjá félaginu í sumar og er Coleman algjörlega búinn að missa alla þolinmæði gagnvart honum.

Malbranque vill ekki skrifa undir langtíma samning við félagið og hefur einnig neitað að skrifa undir styttri samning. Leikmaðurinn segist vilja spila fyrir Fulham út þessa leiktíð og fara frá því á frjálsri sölu næsta sumar. Þessu neita forráðamenn Fulham alfarið og vilja losna við hann núna á meðan þeir fá eitthvað fyrir hann.

"Ég er búinn að gera allt sem ég get gert til að þóknast honum og þolinmæði mín er nú á þrotum. Steed Malbranque spilar ekki mínútu fyrir Fulham á meðan ég stýri liðinu og ég verð að standa á mínu til að gefa ekki slæmt fordæmi fyrir aðra leikmenn," sagði Coleman, sem er í afar erfiðri stöðu með sinn besta leikmann. Fulham hefur reynt allt til að losna við hann í sumar en þó mikill áhugi sé á Malbranque frá öðrum liðum, vill leikmaðurinn ekki fara fyrr en næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×