Lífið

Geitur og kirkjukaffi

Kirkjuhúsið, Laugavegi 31, verður opið frá 14.00 - 22.00 á Menningarnótt. Þar munu Hjálparstarf kirkjunnar, Skálholtsútgáfan og Biskupsstofa bjóða upp á kirkjukaffi og léttar veitingar um leið og starfið verður kynnt með lifandi hætti.

Hjálparstarf kirkjunnar safnar fé í verkefni í Malaví undir kjörorðinu "gefðu geit sem gefur". Geitur úr Húsdýragarðinum gefa tóninn með nærveru sinni.

Í búðinni í Kirkjuhúsinu verða "sanngjörn viðskipti" (fair trade) kynnt og seldir krossar með merkilega sögu. Þar verður einnig 5 mínútna upplestur á hálfa tímanum allan daginn og munu margir góðir gestir taka þátt.

Gamlir vinir og leikbrúður úr sunnudagaskólanum munu heimsækja staðinn kl. 15.00 og 16.00 og skemmta börnum. Söngtríóið Kanga syngur afríska söngva kl. 18.00 og Sumarkirkjan, þau Þorvaldur Halldórsson og Margrét Scheving, syngja fyrir fólk og stjórna almennum söng kl. 17.00, 20.00 og 21.00.

Klukkan 19.00 verður kirkjubíó og umræður. Í hliðarherbergi verður kyrrðar- og bænaherbergi allan daginn í umsjón Djáknafélags Íslands.

Nánari upplýsingar eru á www.kirkjan.is

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×