Sport

Viðurkennir veikleika sína

Adrian Boothroyd á erfitt verkefni fyrir höndum í úrvalsdeildinni í vetur
Adrian Boothroyd á erfitt verkefni fyrir höndum í úrvalsdeildinni í vetur NordicPhotos/GettyImages

Knattspyrnustjórinn Adrian Boothroyd hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Watford viðurkennir að ef hann hafi veikleika sem knattspyrnustjóri, hafi það helst með vanþekkingu hans á erlendum leikmönnum hans að gera. Boothroyd segist ætla að reyna að styrkja lið sitt með mönnum frá Bretlandseyjum á fyrsta tímabili sínu með Watford í úrvalsdeildinni.

"Ég verð að viðurkenna að ég hef mjög litla þekkingu á erlenda markaðnum og ætli það verði ekki að flokkast undir veikleika mína sem stjóri. Það er alltaf erfitt þegar fólk er að setja sig í samband við mann og bjóða manni leikmenn sem það segir vera góða héðan og þaðan, því stundum veit þetta fólk ekki einu sinni hvað það er að tala um," sagði Boothroyd.

"Ef maður ætlar að koma með erlenda leikmenn til félagsins, verður maður að hafa fólk innan sinna raða sem getur veitt þessum mönnum stuðning og það höfum við ekki. Við erum ekki með starfsfólk sem talar sex eða sjö tungumál. Það sem við munum leitast við að gera er að sanka að okkur ungum og efnilegum enskum leikmönnum sem geta vaxið í okkar starfi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×