Sport

Smith gæti orðið klár í slaginn fljótlega

Fótbrot Smith í leiknum gegn Liverpool í vor var sannarlega ekki áhorfsefni fyrir viðkvæma
Fótbrot Smith í leiknum gegn Liverpool í vor var sannarlega ekki áhorfsefni fyrir viðkvæma NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, útilokar ekki að framherjinn Alan Smith gæti jafnvel verið orðinn klár í slaginn í fyrsta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni, sem er útileikur gegn Fulham þann 20. ágúst. Smith tvífótbrotnaði í bikarleik gegn Liverpool í vor og var talið að hann yrði mjög lengi frá eftir þessi alvarlegu meiðsli.

"Það kæmi mér satt best að segja ekki mikið á óvart ef Smith yrði orðinn klár þegar leikur hefst í næsta mánuði, því hann hefur sýnt ótrúlega skapfestu og vilja í meiðslum sínum. Fjöldi leikmanna hefði dottið niður andlega og misst sig í svekkelsi eftir svona áfall, en Smith er mjög sérstakur persónuleiki og því kemur það mér í raun ekki mikið á óvart að hann skuli vera kominn á góðan bataveg," sagði Ferguson og bætti við að Smith hefði staðið sig mjög vel á æfingum.

Ferguson hefur auk þess gefið það til kynna að hann ætli að tefla Smith fram sem sóknarmanni í vetur eftir að hafa gert tilraun með að láta hann leysa stöðu varnartengiliðs á síðustu leiktíð. Smith hefur allan sinn feril spilað sem sóknarmaður og braust fram á sjónarsviðið þegar hann lék með Leeds United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×