Sport

Neitar að hafa talað illa um Chelsea

Sir Alex Ferguson
Sir Alex Ferguson NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson hefur séð ástæðu til að leiðrétta frétt sem birtist í blaði í Suður-Afríku, þar sem því var haldið fram að Ferguson hefði sagt að Chelsea væri að ganga að knattspyrnunni dauðri. Ferguson var sakaður um að láta þessi orð falla í kvöldverðarboði í Höfðaborg þar sem Manchester United hefur verið við æfingar að undanförnu.

"Það er þreytandi að geta ekki farið út að borða án þess að einhver beri upp á mann einhverja vitleysu," sagði Ferguson. "Svona er þetta samt stundum, en ég sagði aldrei að Chelsea væri að ganga að knattspyrnunni dauðri - það sem ég sagði hinsvegar var að ég hefði áhyggjur af því sem ég heyrði um að Chelsea væri nýbúið að gera samning við 30 unga knattspyrnumenn frá Afríku," sagði Ferguson.

"Forráðamenn Chelsea er bara að gera það sem þeir telja sig þurfa að gera, en ég sagði aldrei að það væri að eyðileggja fótboltann. Það eina sem ég sagði var að ég skildi ekki hvernig þessir 30 knattspyrnumenn ættu nokkurn möguleika á að fá að spila leik með liðinu," sagið Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×