Hljómsveitin Æla hefur verið starfandi í þeirri mynd sem hún er í dag frá árinu 2003. Í upphafi átti Æla bara að vera gott partý en nú er komin út breiðskífa sem ber heitið Sýnið tillitssemi, ég er frávik. Skrautleg sviðsframkoma og kyngimagnaður kraftur á sviði verið aðaleinkenni hljómsveitarinnar þar sem forsprakki sveitarinnar er vopnaður stól og þráðlausum gítarsendi og á hann til að príla uppí rjáfur eða jafnvel útaf staðnum.
Æla leikur pönkskotna rokkmúsík sem hefur verið líkt við hljómsveitir á borð við The Rapture, Purk Pillnikk, Minute Men og Shellac. Platan inniheldur 15 lög sem tekin voru upp á síðasta ári í Keflavík. Ingi Þór Ingibergsson stjórnaði upptökum og sá um hljóðblöndun ásamt hljómsveitinni sjálfri.
Formlegir útgáfutónleikar verða auglýstir síðar en Æla er að spila á Paddy´s, Keflavík á fimmtudaginn 20. júlí ásamt Koju og Lokbrá.