Sport

FIFA hefur rannsókn á máli Zidane

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur nú hrundið af stað rannsókn á atburðarásinni í kring um rauða spjaldið sem Zinedine Zidane fékk að líta í úrslitaleiknum á HM. Zidane skallaði þá Marco Materazzi frá Ítalíu og hefur sá verið sakaður um kynþáttaníð í kjölfarið, en heldur alfarið fram sakleysi sínu.

Materazzi hefur verið sakaður um að hafa kallað Zidane hryðjuverkamann, en sjálfur segist hann vera of vitgrannur til að vita hvað orðið þýðir og segist raunar aðeins þekkja einn hryðjuverkamann - 10 mánaða gamla dóttur sína.

Varalesarar hafa verið fengnir til að lesa út hvað fór þeirra Zidane og Materazzi í milli áður en Zidane skallaði hann og einhverjir hafa fundið það út að Materazzi hafi kallað Zidane "son hryðjuverkahóru."

Materazzi hefur sem fyrr sagði neitað slíku, en hefur viðurkennt að hafa hreitt ónotum í Zidane eftir að hann horfði á hann hrokafullu augnaráði og bauð honum treyjuna sína eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×