Sport

Óbreytt lið hjá Frökkum og Ítölum

Nú styttist óðum í hápunkt heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, en úrslitaleikur Frakka og Ítala hefst klukkan 18 og verður í beinni útsendingu á Sýn. Leikurinn fer fram í Berlín og mæta báðar þjóðir til leiks með óbreytt byrjunarlið frá síðasta leik sínum í mótinu.

Zinedine Zidane leikur í kvöld sinn síðasta leik á ferlinum fyrir Frakka rétt eins og félagi hans Lilian Thuram og mun leitast við að lyfta HM-styttunni í annað sinn á átta árum til að kóróna stórkostlegan feril sinn sem knattspyrnumaður.

Ítalska liðið hefur eflaust hug á að hefna tapsins fyrir Frökkum í úrslitaleik EM frá árinu 2000, en ljóst er að ógerningur er að segja til um hvort liðið er sigurstranglegra í kvöld. Ítalska liðið hefur sýnt mikinn stöðugleika í keppninni að þessu sinni, á meðan leikur Frakka hefur vaxið með hverjum deginum eftir daufa byrjun.



Ítalía: Buffon; Zambrotta, Grosso, Cannavaro, Materazzi; Gattuso, Camoranesi, Pirlo, Perrotta; Totti; Toni.



Frakkland: Barthez; Sagnol, Abidal, Thuram, Gallas; Makelele, Vieira, Malouda, Ribery, Zidane; Henry.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×