Sport

Owen gagnrýnir Eriksson

Wayne Rooney var gríðarlega svekktur eftir að hann var rekinn af velli í leiknum gegn Portúgölum
Wayne Rooney var gríðarlega svekktur eftir að hann var rekinn af velli í leiknum gegn Portúgölum

Enski landsliðsframherjinn Michael Owen hefur nokkuð óvænt gagnrýnt þá ákvörðun Sven-Göran Eriksson að hafa teflt Wayne Rooney fram einum í framlínu enska liðsins á HM og segir þessa ákvörðun eina af ástæðunum fyrir því að Rooney var rekinn af velli gegn Portúgölum.

"Rooney var orðinn mjög gramur af að spila einn frammi, enda er það ákaflega erfitt hlutverk sem reynir á þolinmæðina. Hann er einn allra besti framherji í heiminum, en ef þú lætur mann eins og hann spila einan í framlínunni - ertu með því að skera af honum aðra löppina," sagði Owen og á þar við að það henti leikmanni eins og Rooney alls ekki að vera einn á toppnum. Hann segir jafnframt að það hafi verið sér gríðarlegt áfall að sjá á eftir félögum sínum falla úr keppni svo snemma.

"Við létum frábært tækifæri renna okkur úr greipum á þessu móti og vonbrigðin að ná ekki lengra eru gríðarleg. Mér þótti sem við værum með besta liðið á mótinu, leikmann fyrir leikmann - og við áttum að ná lengra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×