Innlent

Mæðraeftirlit endurskipulagt vegna flutninga í Mjódd

Endurskipuleggja þarf mæðraeftirlit á höfuðborgarsvæðinu vegna flutnings á Miðstöð mæðraverndar frá Barnónsstíg og upp í Mjódd, segir sviðsstjóri lækninga á kvennasviði Landspítalans. Hann tekur undir kröfur starfsmanna Heilsverndarstöðvarinnar á Barónsstíg um að ríkið reyni að eignast húsið aftur.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum stendur til að flytja starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg upp í Mjódd þar sem búið er að selja húsið. Þessu hafa starfsmenn heilsuverndarstöðvarinnar mótmælt og benda á að húsnæðið í Mjóddinni standist ekki faglegar kröfur.

Í Heilsuverndastöðinni hefur meðal annars verið að finna heilsuvernd barna, stjórnsýslu heilsugæslunnar auk Miðstöðvar mæðraverndar. Þar koma konur í eftirlit á meðgöngu og að sögn Reynis Tómasar Geirssonar, sviðsstjóra lækninga á kvennadeild, fer eftirlit með 60-70 prósentum þungaðra kvenna þar.

Um helmingur þeirra þrjátíu prósenta sem eftir séu þurfi hins vegar einnig að vera undir eftirliti sérfræðinga á Landspítalanum og því hafi nálægðin við Heilsuverndarstöðina verið mikill kostur. Nú verði hins vegar breyting á og skipuleggja þurfi mæðraeftirlitið með öðrum hætti og koma þurfi upp móttöku í þrengslunum á kvennadeild til að taka á móti 800 konum á ári.

Starfsmenn heilsuverndarstöðvarinnar hafa lagt til að ríkið reyni að eignast húsið aftur en nýr eigandi hefur nýverið auglýst það til sölu eða leigu. Undir þá kröfu tekur Reynir Tómas og segir söluna pólitísk mistök. Heilsuverndarstöðin hafi verið byggð fyrir heilsugæslu og hvert mannsbarn þekki það. Ef hægt sé að hætta við söluna sé hann fylgjandi því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×