Innlent

Vill hefja lóðaúthlutun á Geldinganesi á næsta ári

MYND/Pjetur

Meirihlutinn í borgarstjórn vill hefja úthlutun lóða á Geldinganesi strax á næsta ári. Borgarfulltrúi Samfylkingar segir þetta róttækt afturhvarf frá fyrri stefnu skipulagsráðs borgarinnar.

Skipulagsráð fundaði í fyrsta sinn í morgun eftir að nýr meirihluti tók við stjórnartaumunum í Reykjavík. Dagur B. Eggertsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í ráðinu og fyrrverandi formaður þess, segir meirihlutann hafa þar tilkynnt að forgangsverkefni skipulagsráðs væru að hraða skipulagi í Úlfarsárdal og hefja skipulagningu Geldingarness. Dagur segir að ekki þurfi að vera óskynsamlegt að horfa til Úlfarsárdals í því efni, en öðru máli gegni um Geldingarnesið. Að hefja skiplagningu þess sé afturhvarf frá þéttingu byggðar, eflingu miðborgarinnar og þeirri stefnu að byggja upp spennandi borgarumhverfi.

Dagur segir að það verði að liggja fyrir niðurstaða um legu Sundabrautar áður en hægt sé að hefja skipulagningu Geldingarness. Fólk verði jú að komast til og frá nesinu, og þá án þess að umferðin liggi í gegnum íbúðabyggðina í Grafarvogi.

Samfylkingunni í borginni hefur verið legið á hálsi að hafa tafið niðurstöðu í Sundabrautarmálinu undanfarin ár. Aðspurður hvort ekki megi segja að ef allt hefði gengið eðlilega fyrir sig í því máli væri Geldinganesið og skipulagning þess uppi á borðum núna, segist Dagur ekki geta tekið undir það. Samfylkingin hafi unnið að legu Sundabrautar í samráði við íbúa og viljað tryggja Sundabraut alla leið, einmitt til þess að umferðin þurfi ekki að hlykkjast í gegnum nálæg íbúðahverfi. Þá hafi flokkurinn viljað velja bestu leiðina, en ekki þá ódýrustu, þar sem um sé að ræða framkvæmd til næstu fimmtíu ára. Það hafi hins vegar lengst af skort fé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×