Lífið

Þjóðbúningar, þjóðdansar og fornbílar

Sérstök hátíðardagskrá verður í Árbæjarsafni þjóðhátíðardaginn 17. júní. Í tilefni dagsins eru gestir hvattir til að mæta í eigin þjóðbúningum. Fólk af erlendum uppruna er sérstaklega boðið velkomið og hvatt til að mæta í þjóðbúningum síns heimalands.

Allir helstu fornbílar landsins safnast saman á Árbæjarsafni og verða til sýnis fram til kl. 11.00 en þá leggja þeir af stað niður í miðbæ.

Klukkan 14.00 geta gestir fylgst með hvernig faldur, faldblæja og spöng eru sett upp og borin við skautbúning. Leiðsögumenn safnsins munu klæðast fjölbreyttum búningum í eigu safnsins, peysufötum, upphlut og skautbúning.

Í safnhúsinu Suðurgötu 7 er gullsmíðasýning Dóru Jónsdóttir gullsmiðs sem nefnist „Nútíð byggð á fortíð". Dóra kappkostar að setja þjóðlegt handverk í nýtt samhengi og tengja það við tískustrauma nútímans.

Klukkan 15.00-15.00 mun Þjóðdansafélag Reykjavíkur sýna þjóðdansa á Torginu.

Karl Jónatansson spilar á harmoníku við Árbæ og Dillonshús, handverksfólk verður í húsunum og húsfreyjan í Árbæ bakar lummur í tilefni dagsins

Allir eru velkomnir, safnið verður opið frá kl. 10-17. Aðgangseyrir fyrir fullorðna er kr. 600 en ókeypis er fyrir börn að 18 ára aldri og eins er ókeypis fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja.

Ókeypis aðgangur verður fyrir gesti sem klæðast þjóðbúningum. Einnig geta gestir notið ljúffengra veitinga í Dillonshúsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×