Lífið

Sýningin Ísland í Þjóðminjasafni Íslands

Ný sýning verður opnuð í Myndasal Þjóðminjasafnsins nk. föstudag kl. 18:00. Sýningin ber heitið Ísland og er helguð ólíkri sýn tveggja Evrópubúa á landið.

Sumarið 1938 ferðuðust þjóðverjinn Alfred Ehrhardt og Englendingurinn Mark Watson um Ísland. Báðir komu til að sjá og upplifa náttúru landsins en tilgangur þeirra var þó ólíkur. Watson hafði dreymt um að sjá landið frá bernsku og ljósmyndir hans eru í anda almennra ferðamynda. Eins og myndirnar vitna um var hann mjög liðtækur ljósmyndari. Watson myndar ekki bara landslagið heldur ferðalagið sjálft, torfbæi, hesta og fólkið í landinu. Ehrhardt nálgast landið á allt annan hátt. Hann lagði leið sína til Íslands gagngert til að ljósmynda form landsins og frumkrafta jarðarinnar eins og þeir endurspeglast til dæmis í hraunmyndunum og hverahrúðri. Hann var myndlistarmaður sem þegar hafði skapað sér nafn. Ljósmyndir hans eru persónuleg túlkun á umhverfinu og nærmyndir af áferð og mynstri sem í því birtist.

Myndir þeirra Ehrhardts og Watsons eru vitnisburður um hvað ljósmyndin getur verið persónulegt og margrætt tjáningarform. Sýn og túlkun tveggja einstaklinga á sama tíma þarf ekki að eiga neitt sameiginlegt nema miðilinn. Ísland árið 1938 lifir á ólíkan hátt í myndum þessara tveggja ljósmyndara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×