Innlent

Býst ekki við áframhaldi á risarækjueldi

MYND/GVA

Guðlaugur Þór Þórðarsson, nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, á ekki von á því að mikill áhugi verði hjá nýjum meirihluta borgarstjórnar að halda áfram risarækjueldi á vegum fyrirtækisins.

Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur kaus stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í dag. Formaður stjórnarinnar verður Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi borgarfulltrúi. Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna í borgarstjórn, var kjörinn varaformaður. Auk þeirra sitja Stefán Jón Hafstein, Haukur Leósson og Ólafur F. Magnússon í stjórninni.

Guðlaugur segir mörg verkefni bíða nýrrar strjórnar enda Orkuveitan öflugt fyrirtæki með gott starfsfólk og mikla möguleika. Hins vegar hafi Orkuveitan farið út í óhefðbundnar fjárfestingar og það hafi ekki skilað fyrirtækinu arði. Það sé verkefni nýs borgarstjórnarmeirihluta og nýrrar stjórnar Orkuveitunnar að fara fyrir málin og meta hvað sé best að gera miðað við þær aðstæður.

Meðal þess sem sjálfstæðismenn gagnrýnt undanfarin ár í rekstri Orkuveitunnar er þátttaka fyrirtækisins í risarækjueldi. Útlit er fyrir stefnubreytingu í þeim málum.

Guðlaugur segir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hafi lýst því yfir að það yrði ekki farið út í neinar ævintýrafjárfestingar og það sé ákveðin stefnubreyting sem fylgt verði eftir. Aðspurður hvort það þýði að hætt verði við risarækjueldið segir Guðlaugur að hann eigi ekki von á að mikill áhugi verði hjá nýjum meirihluta borgarstjórnar að halda áfram með slíkt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×