Sport

Klose sá fimmti sem skorar á afmælisdaginn sinn

Miroslav Klose skoraði tvennu fyrir Þýskaland í opnunarleik HM. Hér skorar hann seinna mark sitt.
Miroslav Klose skoraði tvennu fyrir Þýskaland í opnunarleik HM. Hér skorar hann seinna mark sitt. AP

Þjóðverjinn Miroslav Klose fagnaði 28 ára afmælisdegi sínum með því að skora tvö mörk í opnunarleik heimsmeistarakeppninnar gegn Kosta Ríka. Klose varð þar með fimmti leikmaðurinn í sögu HM til þess að skora á afmælisdaginn sinn og sá annar í röðinni sem skorar tvö mörk á fæðingardegi sínum.

Miroslav Klose kann greinilega vel við sig í fyrsta leik á HM því hann skoraði þrennu í fyrsta leik Þjóðverja á HM í Japan og Suður-Kóreu fyrir fjórum árum. Þýskaland vann þá lið Sádí-Arabíu 8-0 og Klose skoraði þá meðal annars tvö mörk á fyrstu 25 mínútunum.

Afmælisbörn sem hafa skorað í sögu HM:

Roger Hunt, Englandi

Tvö mörk í 2-0 sigri á Frökkum 20. júlí 1966 - 28 ára

Dinko Dermendzjiev, Búlgaríu

Eitt mark í 2-3 tapi fyrir Perú 2. júní 1970 - 29 ára

Michel Platini, Frakklandi 2 sinnum

Eitt mark í 4-1 sigri á Kúvæt 21. júní 1982 - 27 ára

Eitt mark í 1-1 jafntefli við Brasilíu 21. júní 1986 - 31 árs

Aldo Serena, Ítalíu

Eitt mark í 2-0 sigri á Úrúgvæ 25. júní 1990 - 30 ára

Miroslav Klose, Þýskalandi

Tvö mörk í 4-2 sigri á Kosta Ríka 9. júní 2006 - 28 ára

Aldrei áður í sögu HM hafa verið skoruð jafn mörg mörk í opnunarleik eins og í dag þegar Þjóðverjar lögðu Kosta Ríka 4-2. Miroslav Klose skoraði sitt 6. og 7. mark fyrir þýska liðið, en fram að leiknum í dag höfðu öll mörk hans komið eftir skalla.

Sigur Þjóðverja í dag var fimmti sigur liðsins í opnunarleik í röð á HM, en þetta var jafnframt fyrsti leikurinn sem Þjóðverjar skora fleiri en eitt mark í sjö síðustu leikjum sínum á HM. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×