Fótbolti

Marco bíður eftir frekari fregnum af Rafael

Það ræðst á morgun hvort hollenski landsliðsmaðurinn Rafael van der Vaart getur tekið þátt í Heimsmeistarakeppninni í sumar.

Þessi knái miðjumaður hefur átt í vandræðum með ökklann og hefur ekki tekið þátt í neinum vináttuleikjum Hollendinga undanfarið.

Marco van Basten hafði hugsað sér að taka miðjumanninn með sér til Þýskalands jafnvel þótt að hann ætti enn í vandræðum með ökklann, en slæmur leikur Hollenska landsliðsins gegn Ástralíu á sunnudaginn hefur neytt hann til að hugsa sig um áður en hann tekur endanlega ákvörðun.

Miðjumennirnir Wesley Sneijder og Philip Cocu meiddust í þeim leik og Basten hefur áhyggjur af því að taka með hálfmeiddan van der Vaart til Þýskalands.

"Í sambandi við van der Vaart þá munum við bíða fram á miðvikudag með að taka lokaákvörðun," sagði Hollenski þjálfarinn. "Við verðum einnig að sjá hvernig meiðslin hjá Sneijder þróast á komandi dögum."

Þrátt fyrir að Sneijder, Cocu og Giovanni van Bronckhorst hafi allir meiðst á sunnudaginn sér van Basten ekki eftir þeirri ákvörðun að hafa spilað vináttulandsleikinn.

"Ég sé ekki eftir leiknum því það er gott að spila harðan fótbolta," sagði Basten á fréttamannafundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×