Sport

Brasilíumenn skoruðu fjögur mörk gegn Nýja-Sjálandi

Adriano fagnar hér marki sínu gegn Nýja-Sjálandi í gær en markið skoraði hann með þrumuskoti.
Adriano fagnar hér marki sínu gegn Nýja-Sjálandi í gær en markið skoraði hann með þrumuskoti. AP

Brasilía vann Nýja-Sjáland 4-0 í æfingaleik í Genf í Sviss í dag en þetta var lokaleikur heimsmeistaranna fyrir HM sem hefst á föstudaginn. Ronaldo, Adriano, Kaka og Juninho skoruðu mörkin en staðan var 1-0 í hálfleik. Þetta var viðburðarríkur dagur fyrir Che Bunce, fyrrum leikmann Breiðabliks, en hann kom inn á sem varamaður í fyrri hálfleik og var síðan borin alblóðugur af velli í þeim seinni.

Ronaldo skoraði eina mark fyrri hálfleiks eftir undirbúning Cafu og Kaka en fjölmargir áhorfendur í Genf þurftu að bíða í 42 mínútur eftir að brasilsíka liðinu tækist að komast í gegnum varnarmúr Ný-Sjálendinganna. Brassarnir bættu við þremur mörkum í seinni hálfleik, fyrst Adriano með þrumuskoti eftir að Robinho hafði galopnað vörnina, þá Kaka eftir skyndisókn og magnað hlaup upp allan völlinn og loks varamaðurinn Juninho eftir skemmtilega sókn. Ronaldo spilaði bara fyrri hálfleikinn og flestir aðalleikmenn liðsins var skipt útaf í seinni hálfleik enda upplagt að leyfa fleiri snillingum að spreyta sig. Það er víst nóg af þeim í brasilíska landsliðinu á þessu heimsmeistaramóti.

Brasilíumenn eru með Króatíu, Japan og Ástralíu í riðli á HM í Þýskalandi og mæta Króötum í fyrsta leik 13. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×