Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann í fimmtán mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot. Hann var ákærður fyrir að hafa haft samræði við konu í samkvæmi á meðan hún gat ekki spyrnt á móti sökum ölvunar og svefndrunga.
Héraðsdómur Vestfjarða hafði dæmt manninn í eins árs fangelsi fyrir verknaðinn en Hæstiréttur þyngdi dóminn og staðfesti að maðurinn skyldi greiða konunni 700 þúsund krónur í miskabætur. Einn dómari skilaði sératkvæði, Ólafur Börkur Þorvaldsson, og taldi varhugavert gegn staðfastri neitun ákærða að telja sekt hans sannaða og að sýkna bæri hann af kröfu ákæruvaldsins.