Lífið

Platan Vorvindar komin verslanir

Tríó Björns Thoroddsen og Andrea Gylfadóttir hafa sent frá sér þrettán laga plötu sem ber heitið Vorvindar. Á henni syngur Andrea dáðustu alþýðusöngva þjóðarinnar frá síðustu öld. Af þeim má til dæmis nefna lagið Vorvindar glaðir, en það má nú þegar heyra á öldum ljósvakans. Önnur lög eru meðal annars Draumur hjarðsveinsins, Hlíðin mín fríða, Sveitin milli sanda, Blátt lítið blóm eitt er og Ömmubæn.

Vorvindar ber keim af vor- og sumarrómantík sem á nú vel við. Hér þekkir tónlistin engin landamæri því á plötunni má finna jafnt íslensk dægurlög, barnasöngva, söngljóð, þjóðleg lög sem erlenda flökkusöngva. Hér eru öll lögin sungin á íslensku og fylgir textabók með.

Meðlimi tríósins þarf vart að kynna; Björn Thoroddsen gítarleikari hefur verið fremstur meðal jafningja í íslenskum jazzi í meira en 20 ár og Andrea Gylfadóttir hefur verið ein af okkar fremstu söngkonum til margra ára.

Jón Rafnsson bassaleikari hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi síðastliðin ár, og er hann með Birni í tríóinu Guitar Islancio. Jóhann Hjörleifsson hefur verið einn af okkar eftirsóttustu trommuleikurum til fjölda ára. Hann leikur með hinni vinsælu hljómsveit Sálinni hans Jóns míns, en er einnig fastur trommari Stórsveitar Reykjavíkur. Á plötunni leggur Kjartan Valdemarsson tríóinu lið á harmonikku í nokkrum lögum.

Vorvindar er gefin út hjá Senu og er platan komin í verslanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×