Sport

Dowie tekinn við Charlton

Draumur Dowie um að snúa aftur í úrvalsdeildina er orðinn að veruleika, en á væntanlega eftir að draga dilk á eftir sér
Draumur Dowie um að snúa aftur í úrvalsdeildina er orðinn að veruleika, en á væntanlega eftir að draga dilk á eftir sér NordicPhotos/GettyImages

Knattspyrnustjórinn Ian Dowie tók í dag við liði Charlton í ensku úrvalsdeildinni. Forráðamenn Crystal Palace, þar sem Dowie lét af störfum fyrir skömmu, eru æfir út af ráðningunni og ætla í mál við stjórann.

Simon Jordan hefur stefnt Dowie fyrir að ráða sig í vinnu hjá Lundúnaliðinu, því þegar Dowie lét af störfum hjá Palace fyrir skömmu, samþykkti stjórnarformaður Palace að nýta sér ekki ákvæði í samningi hans sem tryggir félaginu eina milljón punda ef hann yrði keyptur í burtu. Dowie sagðist vilja hætta til að geta flutt aftur norður í land til að vera nær fjölskyldu sinni, en hefur nú tekið við stjórastöðu hjá félagi sem er í næsta nágrenni við Crystal Palace í Lundúnum.

"Dowie sagði mér að hann vildi hætta til að geta flutt norður og verið með fjölskyldu sinni, svo ég ákvað að sleppa ákvæðinu um þessa milljón punda. Ég hefði aldrei gert það ef ég hefði vitað að hlutirnir færu svona," sagði Jordan, sem ætlar alla leið með málið ef þurfa þykir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×