Það verður 20 prósent dýrara að fá danska hjúkrunarfræðinga til starfa á Landspítalanum en að fá íslenska hjúkrunarfræðinga til að manna vaktirnar í yfirvinnu. Stjórnendur spítalans segja þetta hins vegar tryggja mönnun á þeim vöktum sem Danirnir eru ráðnir á meðan á sumarfríum starfsmanna stendur.
Stjórnendur Landspítala háskólasjúkrahúss mótmæltu í dag samanburði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á kjörum íslenskra hjúkrunarfræðinga og danskra hjúkrunarfræðinga sem verða ráðnir til starfa á spítalanum í sumar. Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er munurinn allt að sextíu prósent Dönunum í vil.
Stjórnendur Landspítalans andmæltu þessu í dag og sögðu samanburðinn villandi og ósanngjarnan. Danirnir yrðu ráðnir í verktakavinnu gegnum starfsmannaleigu og í því fælist ýmis kostnaður sem ekki kæmi fram í taxta íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vísuðu þeir þar til ýmissa gjalda sem vinnuveitendur verða að greiða. Aðspurðir um muninn á heildarkostnaði á hvern hjúkrunarfræðing sem ráðinn er samkvæmt íslenskum kjarasamningum og hverjum hinna dönsku hjúkrunarfræðinga sem koma hingað í sumar var svarið 20 prósent Dönunum í vil. Og þá er gert ráð fyrir að núverandi hjúkrunarfræðingar þyrftu að taka að sér yfirvinnu til að manna vaktirnar sem dönsku hjúkrunarfræðingarnir ganga.
Stjórnendur Landspítalans sögðu ástæðuna fyrir ráðningu Dananna á þessum kjörum þá að erfiðlega hefði gengið að fá íslenska hjúkrunarfræðinga til starfa. Hins vegar hafi verið nauðsynlegt að fá fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa í sumar meðan á sumarfríum starfsmanna stendur.