Innlent

Framsóknarflokkurinn vill sérstakan Kópavogsstrætó

Kópavogur
Kópavogur MYND/GVA

Framsóknarflokkurinn í Kópavogi vill halda áfram að lækka dagvistargjöld og koma á fót sérstökum Kópavogsstrætó. Oddviti B-listans segist ekki leggja áherslu á að Framsóknarflokkurinn endurheimti bæjarstjórastólinn í Kópavogi.

Þetta kom fram á kynningarfundi Framsóknarflokksins í Kópavogi, fyrir kosningarnar um þarnæstu helgi, sem haldinn var á kosningaskrifstofu flokksins við Digranesveg í dag. Einnig stefnir flokkurinn að því að minnka álögur á bæjarbúa á komandi kjörtímabili, lækka fasteignagjöld og greiða niður æfingagjöld vegna íþróttaiðkunar barna og unglinga allt að 18 ára aldri. Aðspurður hvort þetta þýði ekki að nauðsynlegt sé að draga saman á einhverjum sviðum rekstursins segir Ómar Stefánsson, oddviti B-listans í Kópavogi, svo ekki vera. Bærinn hafi enda verið eitt best rekna sveitarfélag landsins.

Framsóknarmaður sat á bæjarstjórastóli í Kópavogi í rúm fjórtán ár, eða frá því Sigurður Geirdal tók við embættinu árið 1990 og gegndi því þar til hann féll frá árið 2004. Spurður hvort framsóknarmenn þyrsti ekkert í að fá mann úr sínum röðum í embætti bæjarstjóra að nýju segir Ómar svo ekki vera. Þeir hafi enda ekki haft neitt bæjarstjóraefni þegar Sigurður varð bæjarstjóri fyrir 16 árum. Aðalatriðið sé að gera bæinn betri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×