Sport

Ég hef aldrei séð Walcott spila

Sven-Göran tekur gríðarlega áhættu með því að velja Theo Walcott í landsliðshópinn fyrir HM
Sven-Göran tekur gríðarlega áhættu með því að velja Theo Walcott í landsliðshópinn fyrir HM NordicPhotos/GettyImages

Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, hefur verið gagnrýndur harðlega í breskum fjölmiðlum í dag eftir að hann valdi táninginn Theo Walcott hjá Arsenal í HM hóp sinn. Eriksson viðurkennir að hann hafi hvorki séð drenginn spila með berum augum, né yfir höfuð talað við hann.

"Kannski er þetta mesta áhætta sem ég hef tekið á ferlinum. Það að taka 17 ára strák á svona stórmót er auðvitað djarfur leikur. Menn sem hafa haft hann í sinni umsjá virðast þó allir á einu máli um að drengurinn sé tilbúinn og að hann hafi alla burði í að standast pressuna sem fylgir því að keppa á mótinu," sagði Eriksson, sem viðurkennir að hann renni blint í sjóinn með því að velja hann í liðið fram yfir reyndari leikmenn.

"Ég hef nú reyndar aldrei séð Walcott spila með berum augum, en ég hef séð marga leiki með honum á myndbandi og svo sá aðstoðarmaður minn hann spila varaliðsleik fyrir skömmu. Ég hef ekki talað við hann, en sagði halló við hann eftir leik fyrir nokkru," sagði Eriksson - en einhverjum þættu þessi rök ef til vill ansi veik fyrir jafn stórri ákvörðun.

Ef Walcott fær að spila á HM í sumar, yrði hann næst yngsti leikmaður í sögu HM á eftir Norður-Íranum Norman Whiteside, sem fékk að spila á HM á Spáni árið 1982 - þá aðeins 17 ára og 41 dags gamall. Til samanburðar má nefna að Pele var orðinn 17 ára og 236 daga gamall þegar hann kom við sögu hjá Brasilíumönnum á HM í Svíþjóð árið 1958.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×