Sport

Leikur West Ham og Tottenham fer fram í dag

Martin Jol, knattspyrnustjóri Tottenham er eflaust ekki sáttur við ákvörðun enska knattspyrnusambandsins. Sjö af hans leikmönnum eru með matareitrun.
Martin Jol, knattspyrnustjóri Tottenham er eflaust ekki sáttur við ákvörðun enska knattspyrnusambandsins. Sjö af hans leikmönnum eru með matareitrun.
Leikur West Ham og Tottenham í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu verður háður á fyrirhuguðum tíma eða kl. 14 í dag þrátt fyrir að sjö af leikmönnum Tottenham séu með matareitrun. Þetta var tilkynnt fyrir skömmu en mikill vafi lék á því nú í hádeginu að leikurinn gæti farið fram.

Fulltrúar frá úrvalsdeildinni mættu á hótelið þar sem Tottenham-liðið dvelur og skömmu síðar var gefin út yfirlýsing þess efnis að leikurinn skyldi fara fram. Það lítur því út fyrir að Martin Jol knattspyrnustjóri Tottenham þurfi að tefla fram hálfgerðu varaliði í þessum mikilvægasta leik liðsins á tímabilinu.

Með sigri í leiknum tryggir Tottenham sér fjórða sæti deildarinnar sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni en Arsenal sem er einu stigi á eftir í fimmta sætinu leikur við Wigan í dag.

Ef Tottenham vinnur leikinn gegn West Ham mun eina von Arsenal til að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeildinni næsta tímabil, að vinna Barcelona í úrslitaleik keppninnar þann 17. maí n.k. Það myndi aftur á móti þýða að Tottenham þyrfti að leika í UEFA Cup þrátt fyrir að ná fjórða sæti í deildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×