Sport

Keisarinn lætur Ballack heyra það

Michael Ballack fékk kaldar kveðjur frá forseta Bayern í gær
Michael Ballack fékk kaldar kveðjur frá forseta Bayern í gær AFP

"Keisarinn" Franz Beckenbauer, forseti Bayern Munchen, lét Michael Ballack heyra það eftir úrslitaleikinn í bikarnum í Þýskalandi í gær, þar sem Bayern bar sigurorð af Frankfurt 1-0. Beckenbauer segir að Ballack sé í huganum þegar orðinn leikmaður Chelsea og var hundfúll með slaka frammistöðu þýska landsliðsmannsins í gær, rétt eins og í síðustu leikjum í úrvalsdeildinni.

"Ballack er bara að spara kraftana fyrir Chelsea," sagði Beckenbauer í samtali við ZDF-sjónvarpsstöðina eftir úrslitaleikinn. "Stundum spyr ég sjálfan mig hvort hann sé að spila fyrir okkur eða einhvern annan, því hann er alveg hættur að leggja sig fram á vellinum og mér finnst hann ekki vera að spila fótbolta þegar hann skokkar svona fram og aftur völlinn," sagði Beckenbauer, sem er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum.

Þegar Ballack var spurður út í gagnrýni forsetans, tók hann þeim nokkuð létt. "Mér er alveg sama hvað hann segir, því það sem mestu máli skiptir fyrir okkur er að hafa unnið bikarinn - þann þriðja á fjórum árum. Það að vinna er það sem skiptir máli, en ef Keisarinn segir það..." sagði Ballack og glotti framan í blaðamann án þess að klára setninguna.

"Hann veit ósköp vel að ég hef rétt fyrir mér," sagði Beckenbauer fúll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×