Innlent

Kosningarnar framundan lita Gustsmálin

MYND/GVA

Kosningarnar í vor hafa hugsanlega áhrif á deilurnar sem sprottnar eru upp um kaup á húsum á hinu svokallaða Gustssvæði, segir talsmaður viðræðunefndar Gusts. Forsvarsmenn félagsins sáu sig knúna til að kalla til fundar í kvöld til að skýra málin fyrir félagsmönnum.

Á bæjarráðsfundi Kópavogsbæjar í gær var samþykkt að ganga til viðræðna við stjórn Gusts um kaup bæjarins á hesthúsum á svæðinu sem um ræðir. Hátt í helmingur húsanna er í eigu eins aðila sem hóf að kaupa upp hús á Gustssvæðinu í fyrra. Þau kaup fóru að valda Gustsmönnum áhyggjum þar sem ekki hefur verið gengið frá samningum um nýtt svæði fyrir hestamenn í Kópavogi. Stjórn Gusts gerði því kauptilboð í húsin og vill nú að Kópavogsbær taki yfir þau tilboð.

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, þurfti að víkja af bæjarráðsfundinum í gær því eiginkona hans á eitt af hesthúsunum á svæðinu. Samfylkingin telur hins vegar að bæjarstjórinn hafi komið að undirbúningi málsins og það þurfi að athuga.

Gustur ákvað með skömmum fyrirvara að kalla til fundar um stöðu mála fyrir félagsmenn í kvöld vegna þeirrar pólitíkur sem skapast hefur í kringum málið og misvísandi upplýsinga sem fram hafa komið í fjölmiðlum. Sveinbjörn Sveinbjörnsson, talsmaður viðræðunefndar Gusts, sagði í samtali við NFS að fundinum loknum að það hafi ekki verið ætlun félagsins að gera málið að pólitísku þrætumáli. Pólitík sé pólitík, félagsmenn Gusts vilji einfaldlega farsæla lausn á málinu.

Aðspurður sagði Sveinbjörn hugsanlegt að sú staðreynd að kosningar séu handan við hornið í Kópavogi hafi með það að gera að málið sé orðið að bitbeini stjórnmálamanna. Hann segist hins vegar telja, sem skattgreiðandi í Kópavogi, að það sé hagstætt fyrir bæinn að kaupa húsin á svæðinu því um afar verðmætt byggingasvæði sé að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×