Lífið

Selja boli til styrktar öryrkjum í Palestínu

Félagið Ísland - Palestína hefur safnað nærri sex hundruð þúsund krónum fyrir öryrkja í Palestínu. Bróðurpartur fjárins hefur safnast með sölu á sérhönnuðum bolum og peysum hér á landi.

Félagið Ísland - Palestína hefur staðið fyrir söfnuninni fyrir Palestínumenn frá því í lok nóvember en þá voru haldnir styrktartónleikar vegna málefnisins. Á sama tíma vaknaði sú hugmynd hjá forystumönnum félagsins og eigendum verslunarinnar Nakta apans á Laugavegi að afla frekara fjár með bola- og peysusölu. Myndirnar á flíkunum tóku félagar í Íslandi Palestínu á ferðum sínum um svæði Palestínumanna en auk þess teiknaði Þorleifur Kamban táknræna mynd fyrir átakið en hún sýnir dreng á þríhjóli við aðskilnaðarmúr Ísraela.

Með söfnuninni er ætlunin að styðja við sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna og vekja athygli á því að þúsundir manna eru öryrkjar eftir baráttu við Ísraelsher síðustu ár. Eva Einarsdóttir, varaformaður Félagsins Ísland Palestína, segir að sumir þeirra drengja sem við sjáum í fréttum kasta grjóti verði fyrir skotum Ísraela og missi fyrir vikið útlimi eða særist alvarlega. Þess vegna séu margir ungir öryrkjar á svæðum Palestínumanna sem þurfi á hjálp að halda. Eva segir enn fremur að líklega fari mestur hluti fjárins í kaup á hjálpartækjum.

Aðspurð hvort hún telji að Palestína verði frjáls í náinni framtíðsegir Eva að hún voni það. Palestínumenn hafi sýnt mikla þrautseigju og aldrei gefist upp og því sé mikilvægt að styðja þá áfram.Peysurnar og bolirnir verða áfram til sölu í Nakta apanum og því er enn hægt að leggja málinu lið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×