Sport

Þetta var sögulegur sigur

Leikmenn Middlesbrough ærðust af fögnuði þegar flautað var til leiksloka á Riverside í kvöld og sæti í undanúrslitum Evrópukeppninnar var í höfn
Leikmenn Middlesbrough ærðust af fögnuði þegar flautað var til leiksloka á Riverside í kvöld og sæti í undanúrslitum Evrópukeppninnar var í höfn NordicPhotos/GettyImages

Steve McClaren, stjóri Middlesbrough var skiljanlega í skýjunum eftir sigur sinna manna á Basel í Evrópukeppni félagsliða í kvöld, en Boro tókst að komast áfram í undanúrslit keppninnar þrátt fyrir að lenda þremur mörkum undir í einvíginu. Massimo Maccarone skoraði sigurmark Boro á 90. mínútu og enska liðið vann samanlagt 4-3.

"Þetta var frábært framtak hjá leikmönnunum, sem sýndu skapgerð sína og stórkostlega knattspyrnu í kvöld. Ég sagði fyrir leikinn að við þyrftum að eiga sögulegan leik til að komast áfram í keppninni og sú varð sannarlega raunin. Þetta var leikur sem enginn mun gleyma og það er ótrúlega góð tilfinning að komast áfram með svona frammistöðu," sagði McClaren.

Jimmy Floyd Hasselbaink tók í sama streng. "Þessi sigur okkar fer í sögubækurnar - þvílíkur leikur. Ég var í rusli yfir því að fá ekki að vera í byrjunarliðinu í kvöld og þegar við lentum undir varð mér hugsað til þess hvort þetta yrði í enn eitt skiptið sem ég myndi missa af verðlaunum á ferlinum. Mig langaði því mikið að setja mark mitt á leikinn og það tókst. Þetta var stórkostleg stund," sagði Hasselbaink, sem skoraði eitt marka Boro í leiknum.

Middlesbrough mætir Steua frá Búkarest í undanúrslitunum og takist liðinu að vinna það einvígi, bíður úrslitaleikur við annað hvort Schalke frá Þýskalandi eða Sevilla frá Spáni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×