Lífið

Vídeobloggstjarna Íslands kynnt

Blogg er tjáningarmáti ungs fólks í dag. Kannanir sýna að tæp 60% Íslendinga á aldrinum 12 til 25 ára blogga einu sinni eða oftar í mánuði. Í sama hópi eru þeir fleiri sem blogga í hverri viku en þeir sem blogga aldrei. Bloggæðið hefur gengið svo langt að sálfræðingar eru farnir að velta því fyrir sér hvort útrásin sem fólk fær við það að blogga sé andlega bætandi.

Sirkus gekk einu skrefi lengra og hóf leit að vídeóbloggstjörnu Íslands. Vídeóblogg gengur út á það að fólk tekur upp vídeódagbók í stað þess að blogga á hefðbundinn hátt á Netinu. Sirkus fór af stað með auglýsingaherferð þar sem leitað var að einstaklingi, pari eða hópi til þess að verða fyrsta vídeóbloggstjarna Íslands. Yfir 200 umsóknir bárust og verður á næstu dögum valið úr þeim og fyrsta vídeóbloggstjarna Íslands síðan kynnt til leiks næsta föstudag.

Vídeóbloggstjarna Íslands mun vídeóblogga á hverjum degi í einn mánuð. Vídeóbloggin munu birtast á minnsirkus.is, á svæði vídeóbloggstjörnunnar, en einnig á Sirkus TV og Sirkus PoppTV. Bloggið verður sýnt þrisvar sinnum á kvöldi á Sirkus TV en sex sinnum yfir daginn á Sirkus PoppTV.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×