Innlent

Hafa áhyggjur af þorskstofninum

Stjórnarandstæðingar lýstu miklum áhyggjum af stöðu þorsksins og gagnrýndu kvótakerfið harðlega við upphaf þingfundar í morgun. Sjávarútvegsráðherra sagði fréttir af togararalli Hafrannsóknastofnunar ekki góðar en hvatti menn til að bíða lokaniðurstaðna.

Hafrannsóknastofnun kynnti í gær bráðabirgðaniðurstöður togararalls síns þar sem stofnstærð þorsks er mæld. Samkvæmt þeim er stofnvísitalan fimmtán prósent lægri en á síðasta ári og hvort tveggja þorskur og ýsa magrari en áður. Þetta varð kveikja mikilla umræðna við upphaf þingfundar í morgun.

Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, sagði að enn og aftur bærust slæmar fréttir af fiskistofnum. Hann sagði ljóst að núverandi kerfi skilaði ekki árangri og að allt sem hann hefði varað við hefði komið fram.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra hafði ekki jafn miklar áhyggjur þó hann segði fréttirnar ekki góðar. Hann minnti á að áður hefði verið munur á bráðabirgðaniðurstöðum úr togararalli og endanlegum niðurstöðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×