Innlent

Frumvarp Valgerðar varla afgreitt úr nefnd

Sigurður Kári Kristjánsson er einn fjögurra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd.
Sigurður Kári Kristjánsson er einn fjögurra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd. MYND/Vilhelm
Afar ólíklegt er að frumvarp iðnaðarráðherra um Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði afgreitt úr iðnaðarnefnd Alþingis, segir þingmaður Sjálfstæðisflokks. Allir sjálfstæðismennirnir í nefndinni gera athugasemdir við frumvarpið.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kynnti frumvarp sitt um stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar á blaðamannafundi fyrir skemmstu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóður verði sameinuð. Nokkurrar óánægju gætti með að ráðherra kynnti frumvarpið á blaðamannafundi áður en það var kynnt fyrir stjórnarflokkunum. Nú hefur komið í ljós að andstaða er við frumvarpið meðal Sjálfstæðismanna og segir í Fréttablaðinu í dag að allir þingmenn flokksins í iðnaðarnefnd geri athugasemdir við frumvarpið.

Sigurður Kári Kristjánsson segir að í frumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir að þær breytingar séu gerðar á Nýsköpunarsjóði sem hann telur nauðsynlegar og helst vill hann leggja Byggðastofnun niður. En er von til að frumvarpið verði að lögum?

"Ég fæ ekki séð hvernig það getur orðið," segir Sigurður Kári. "Það þarf að afgreiða málið út úr iðnaðarnefnd ef það á að gera það að lögum. Eins og þetta mál er fram sett er ekki stuðningur við það, sýnist mér, í nefndinni."

Þingflokkur Framsóknarflokksins afgreiddi málið síðasta föstudag og það gerði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Sigurður Kári segir að það breyti í sjálfu sér engu. "Við gerðum okkar fyrirvara við málið. Í afgreiðslu þingflokksins út úr þingflokknum fólst engin stuðningsyfirlýsing við það, alla vega ekki af minni hálfu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×