Innlent

Ræðu ráðherra breytt eftir á?

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra MYND/GVA

Andri Snær Magnason rithöfundur segir að ræðu sem iðnaðarráðherra hafi flutt á Iðnþingi á síðasta ári hafi verið breytt eftir á á heimasíðu ráðuneytisins. Aðstoðarmaður ráðherra vísar þessu á bug.

Í nýrri bók Andra Snæs, Draumalandinu, sem höfundurinn kallar sjálfshjálparbók, fjallar hann meðal annars um orkuiðnaðinn hér á landi. Andri leitaði víða fanga, meðal annars í ræðu Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem hún flutti á Iðnþingi í mars í fyrra og má finna á heimasíðu ráðuneytisins. Að sögn Andra Snæs segir ráðherrann meðal annars í ræðunni að þegar framleiðsla í stóriðju verði komin í sem svari til einnar milljónar tonna ársframleiðslu á áli verði, af ýmsum ástæðum, rétt að láta gott heita, því þá hafi Íslendingar notið efnahagslegra- og félagslegra gæða sem þjóðin hefði ekki getað veitt sér með neinum öðrum hætti.

Andri afritaði klausuna til að nota í bók sína, en svo, nokkrum mánuðum seinna, eða í september síðastliðnum, skrifaði iðnaðarráðherra grein í Morgunblaðið þar sem hún segist aldrei hafa haldið því fram að áliðnaðurinn sé eina leið Íslendinga til að skapa góð lífskjör. Andra fannst sú fullyrðing óneitanlega stangast á við fyrri fullyrðingu ráðherrans og hugðist í framhaldinu skoða aftur ræðuna á heimasíðu iðnaðarráðuneytisins. Þá uppgötvaði hann að umrædd klausa í ræðunni, um milljón tonna markið, var horfin. Andri bendir á, máli sínu til stuðnings, að í fréttablaði Samtaka iðnaðarins segi frá þessum kafla ræðunnar.

Það eina sem aðstoðarmaður iðnaðarráðherra vildi segja um málið í morgun er að ræðan sem sé að finna á heimasíðu ráðuneytisins sé ræðan sem ráðherrann flutti á Iðnþinginu, og hann kannist ekki við að breytingar hafi verið gerðar á henni eftir á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×