Sport

Vill gera hið ómögulega

Alex McLeish og hans menn vonast eftir kraftaverki á Spáni í kvöld.
Alex McLeish og hans menn vonast eftir kraftaverki á Spáni í kvöld. NordicPhotos/GettyImages

Alex McLeish og lærisveinar hans í skoska liðinu Glasgow Rangers eiga erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld þegar liðið mætir spænska liðinu Villareal á útivelli í síðari leiknum í Meistaradeildinni. Fyrri leiknum í Skotlandi lauk með 2-2 jafntefli og McLeish leitast við að koma enn einu sinni á óvart og stela sigrinum.

Rangers hafa þegar komið mikið á óvart með því að komast upp úr riðli sínum í keppninni og í 16 liða úrslitin, en það hafði engu skosku liði tekist áður. "Við vitum að við eigum gríðarlega erfiðan leik fyrir höndum, en við eigum allt að vinna. Villareal er frábært lið með mikla reynslu af því að spila stórleiki, en það sýndi sig þegar liðið mætti Everton á sínum tíma að þeir eru mannlegir og hafa taugar eins og aðrir. Við sýndum það í síðasta leik að við erum ekki auðsigraðir og í kvöld verður tækifæri til að sýna hvað í okkur býr," sagði McLeish.

Leikur liðanna verður í beinni útsendingu á Sýn Extra 2 klukkan 19:30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×