Innlent

Vilja kaupa sig framhjá biðlistum hjúkrunarheimila

Fólk hefur boðið milljónir til að koma ættingjum sínum efst á biðlista á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, en á milli tvö og þrjú hundruð manns bíða eftir plássi þar. Borgin vill taka við hluta af öldrunarþjónustu frá ríkinu.

Félag eldri borgara í Reykjavík vill færa málefni aldraðra frá ríkinu til sveitarfélaga. Talsmenn félagsins segja reiði ólaga meðal eldri borgara vegna bágra kjara sem aldrei. Búsetumálin eru í ólestri og biðlistar langir á dvalar- hjúkrunarheimili og fólk reynir að finna leiðir til að stytta biðina.

Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarforstjóri á Sóltúni, segir dæmi um að fólk reyni að borga sig fram hjá biðlistunum. Í vikunni voru boðnar fimm milljónir króna til að koma manneskju, sem þegar var komin í forgangshóp, fremst í röðina. Anna Birna segir kannski ekki mestu máli skipta hverjir fari með málefni eldri borgara heldur þurfi að veita nægu fjármagni í málaflokkinn.

Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, tekur undir óskir aldraðra um að færa þjónustu til þeirra frá ríki til sveitarfélaganna. Hún segir borgina þegar vera farna að samþætta þjónustu sína við þjónustu ríkisins að hluta og segir það ganga vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×