Innlent

Sterk staða krónunnar hefur komið hátækniiðnaðinum illa

Mynd/Valgarður Gíslason

Í ávarpi sínu í dag á UT-deginum sagði Valgerður Sverrisdóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, að sterk staða krónunnar hafi að undanförnu komið útflutnings- og samkeppnisgreinum illa, þar á meðal hátækniiðnaðinum. Vísbendingar séu þó um að gengi krónunnar muni gefa eftir á þessu ári.

Þá sagði ráðherra að þróun í uppbyggingu hátækniiðnaðar hafi ekki orðið jafn hröð hér á landi og annars staðar og að leita þurfi leiða til að bæta úr því. Tilboð Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, Þriðja stoðin, hafi verið kynnt í ríkisstjórn í desember síðastliðnum og sé viðbragða að vænta frá fagráðuneytum, sem fara með viðkomandi málaflokka, á næstunni.

Ráðherra greindi jafnframt frá niðurstöðum starfshóps um fjármögnun nýsköpunar sem skilaði tillögum í lok síðasta árs. Þær beinast aðallega að skattalegum umbótum í þeim tilgangi að auka aðgang nýsköpunarfyrirtækja að áhættufjármagni, einkum með virkjun samlagshlutafélagaforms. Einnig beinast þær að breytingum á virðisaukaskattskerfinu og þá fjallar ein tillagan um skattaívilnanir til tæknifyrirtækja sem stunda rannsókna- og þróunarstarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×